Fara á efnissvæði

Samþykktir

Samþykktir starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks

Nafn sjóðsins og heimili

1. gr.

 

1.1. Sjóðurinn heitir Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks. Skammstöfun sjóðsins er SVS.

1.2. Sjóðurinn er stofnaður á grundvelli kjarasamnings á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og VR og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) hins vegar dags. 14. maí 2000.

1.3. Sjóðurinn er eign VR, LÍV og SA. Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

Markmið sjóðsins

2. gr.

 

2.1. Markmið sjóðsins er að auka hæfni og menntun verslunar- og skrifstofufólks, ásamt því að stuðla að auknu framboði af námi og námsefni sem svari þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma.

Verkefni sjóðsins

3. gr.

 

3.1. Verkefni sjóðsins eru að veita styrki til:

a) aukinnar hæfni og menntunar félagsfólks
b) námskeiðahalds
c) námsefnisgerðar
d) fyrirtækja til starfs- og endurmenntunar félagsfólks

Tekjur sjóðsins

4. gr.

 

4.1.   Atvinnurekendur skulu greiða sem svarar 0,30% af heildarlaunum félagsfólks í sjóðinn.

4.2.   Stéttarfélögin skulu greiða mótframlag sem svarar einum fjórða af greiddu framlagi atvinnurekenda og skal uppgjör fara fram einu sinni í mánuði eða eftir samkomulagi samkvæmt samningi.

4.3.   Vaxtatekjur af iðgjöldum og fjárfestingum.  

Stjórn sjóðsins

5. gr.

 

5.1. Stjórn sjóðsins er skipuð sex fulltrúum til tveggja ára í senn; VR tilnefnir tvo fulltrúa, LÍV tilnefnir einn fulltrúa og SA tilnefnir þrjá fulltrúa. Varamenn skulu vera fjórir; tveir tilnefndir af VR og LÍV og tveir af SA.

5.2. Stjórnin kýs formann og varaformann. Aðilar sjóðsins skulu skiptast á að gegna formennsku til tveggja ára í senn.

5.3. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á innheimtu, úthlutun styrkja og öðrum fjárreiðum sjóðsins.

5.4. Sjóðurinn greiðir allan kostnað sem af starfsemi hans leiðir.

5.5. Ekki skal greitt sérstaklega fyrir stjórnarsetu. Ferðakostnaður stjórnarmanna að lágmarki 50 km frá Reykjavík er greiddur.

5.6. Stjórn sjóðsins er heimilt að fela aðila umsjón með daglegum rekstri sjóðsins, s.s. innheimtu og skilum iðgjalda, greiðslu styrkja, móttöku umsókna, fjármálum o.s.frv. Slíkir samningar skulu vera skriflegir. Ávöxtun sjóðsins skal vera í samræmi við 7. gr. samþykktar SVS.

5.7. Stjórnin setur nánari starfsreglur um greiðslu og fjárhæð styrkja, ávinnslu réttinda og aðra starfstilhögun.

Reikningar og endurskoðun

6. gr.

 

6.1. Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af löggiltum endurskoðanda fyrir 1. maí ár hvert. Reikningsár sjóðsins er frá 1. janúar til 31. desember.

Ávöxtun sjóðsins

7. gr.

 

7.1. Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:

a) Í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs
b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum
c) Í bönkum eða sparisjóðum
d) Í fasteignum tengdum starfsemi og markmiðum sjóðsins
e) Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan

Ávinnsla réttinda

8. gr. 

 

8.1. Félagi ávinnur sér rétt með því að atvinnurekandi greiði iðgjöld til sjóðsins.  Atvinnurekandi sem jafnframt er launamaður þarf að vera í iðgjaldaskilum svo að réttindi ávinnist. Ávinnsla réttinda er nánar tilgreind í starfsreglum sjóðsins.

Skilyrði greiðslu styrkja til félagsfólks

9. gr.

 

9.1. Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga þeir sem eru félagar í VR/LÍV

9.2. Styrkir eru afgreiddir við framvísun umsóknar og greiddra reikninga.

Styrkir til aðildarfyrirtækja

10. gr.

 

10.1. Fyrirtæki sem greiða iðgjald til sjóðsins og eru í skilum eiga kost á styrkjum til verkefna sem hafa það að markmiði að auka hæfni  starfsfólks fyrirtækisins.

Aðrir styrkir

11. gr.

 

11.1. Stjórn er heimilt að veita styrki til einstaklinga, fyrirtækja og aðildarfélaga LÍV vegna fræðslu sem leiðir til aukinnar menntunar félagsmanna. Stjórn er einnig heimilt að veita styrki til fræðsluaðila með viðurkenningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og sérfræðinga úr háskólasamfélaginu, vegna fræðslu/verkefna sem hafa yfirfærslugildi innan stéttarinnar og vegna rannsókna á málefnum greinarinnar. 

Lækkun iðgjalds

12. gr.

 

12.1. Skilyrði fyrir lækkun er að:

Fyrirtæki geta sótt um lækkun á iðgjaldi til sjóðsins úr 0,3% í 0,1% að uppfylltum skilyrðum samkvæmt 13.gr. í starfsreglum sjóðsins, Undanþága frá fullu iðgjaldi – skilyrði.

12.2. Starfsfólk sjóðsins metur hvort skilyrðum  sé fullnægt. Að uppfylltum skilyrðum  tekur lækkun iðgjalds úr 0,30% í 0,10% gildi til eins árs fyrsta árið og eftir það til tveggja ára í senn.

Breytingar og endurskoðun á reglugerð

13. gr.

 

13.1. Breyting á reglugerð sjóðsins skulu staðfestar af öllum stofnaðilum sjóðsins.

Breytingar í apríl 2008, 1. janúar 2014, 1. janúar 2015, 1. janúar 2020 og 1. janúar 2023