Verkefnið byggist á að lána mannauðsráðgjafa til fyrirtækja, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun. Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, dregur fram það sem vel er gert, gerir eða dýpkar greiningu á þörfum fyrirtækisins og samhæfir við önnur námskeið eða viðurkenndar fræðsluleiðir innan óformlega fræðslukerfisins. Má þar nefna námsleiðir samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins – þar sem það á við.
Fræðslustjóri að láni (FAL) er árangursmiðað verkfæri sem miðar að því að samhæfa og nýta lausnir sem þegar eru til, ýmist innan fyrirtækjanna og/eða hjá símenntunarstöðvum eða öðrum fræðsluaðilum. Mikið er til af góðum náms- og þjálfunarúrræðum á vinnumarkaðnum en mörg þeirra eru lítið notuð meðal smærri fyrirtækja, hugsanlega vegna skorts á kynningu.
Mörg fyrirtæki, einkum þau stærri, eru með fjölbreyttar þjálfunaráætlanir fyrir sitt starfsfólk. Vandinn er fá yfirsýn yfir fræðsluna og koma henni í farveg sem gagnast bæði fyrirtækinu og starfsmönnum. Þar er þörf fyrir fræðslustjóra í afmörkuð, skilgreind verkefni.
Allar nánari upplýsingar og umsóknir fara í gegnum Áttina sameiginlegan vef átta starfsmenntasjóða á almenna markaðinum.
Samstarfsaðilar um FAL eru Iðan fræðslusetur, Landsmennt, Rafiðnaðarskólinn, Starfsafl, Menntunarsjóður Verkstjórasambands Íslands, Sjómennt og Starfsmenntasjóður verslunarinnar.
Hvernig er sótt um fræðslustjóra að láni?
- Umsókn um Fræðslustjóra að láni. Einnig er hægt að hafa samband við starfsmenn sjóðsins í síma 510-1700 eða senda tölvupóst á starfsmennt@starfsmennt.is vegna frekari upplýsinga. Starfsmaður leiðandi sjóðs í verkefninu mun hafa samband við fyrirtækið í kjölfarið og koma á upphafsfundi. Skilyrði fyrir umsókn tengd SVS er að fyrirtækið hafi starfsmenn innan SVS og hafi greitt til sjóðsins í 12 mánuði.
- Ef öllum líst vel á verkefnið, eru gerð drög að samningi. Fjöldi tíma sem ráðgjafinn vinnur fyrir fyrirtækið byggir á fjölbreytni starfa innan fyrirtækisins og ákveðnum föstum liðum. Markmið verkefnisins er að ná greiningu á þörfum sem miðast við þverskurð af starfsemi fyrirtækisins. Einungis er leitað til sjálfstæðra ráðgjafa sem hafa mikla reynslu af verkefnum í fyrirtækjum.
- Ef fyrir liggur samþykki á verkefninu er gengið til samninga og verkefnið hefst strax við undirskrift. Verkefnið er mótað í fullu samráði við fyrirtækið.
- Komið er á fót rýnihópum innan fyrirtækisins sem ráðgjafinn leiðir. Jafnframt vinnur hann þarfagreiningu og fræðsluáætlun. Áætlunin er eign fyrirtækisins og viðkomandi sjóðs. Fyllsta trúnaðar er gætt um allt sem við kemur verkefninu.
- Um miðbik verkefnis er haldinn millifundur þar sem farið er yfir framgang verkefnisins og fyrstu drög að fræðsluáætlun eru kynnt.
- Að lokum er verkefnið kynnt á lokafundi að viðstöddum fulltrúum viðkomandi starfsmenntasjóða, sem eiga aðild að verkefninu.
- Framhaldsvinnan er síðan í höndum fyrirtækis með því að framfylgja fræðsluáætluninni og sækja um styrki í viðeigandi starfsmenntasjóði.