Námið, er 60 ECTS einingar. Það er kennt með vinnu og mun taka tvö ár í dreifnámi. Námið byggir að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræðum við Háskólann á Bifröst og í Háskólanum í Reykjavík. Að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga og með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni.
Tveggja ára nám gerir ráð fyrir því að nemandi taki þrjá áfanga á önn. Heimilt er að taka námið á lengri tíma eða allt að fjórum árum, en fyrstu þrjár annir skal nemandi þó að lágmarki ávallt taka einn sameiginlegan skylduáfanga, Birgða- /vöru-, og rekstrarstjórnun, Kaupmennsku eða Verslunarrétt.
Sameiginlegir skylduáfangar eru kenndir í dreifnámi og fer kennsla fram í fjarnámi með staðbundnum vinnulotum á Háskólanum á Bifröst og í Háskólanum í Reykjavík.
Grunnáfangar í viðskiptafræði eru kenndir í staðnámi við Háskólann í Reykjavík eða fjarnámi frá Háskólanum á Bifröst og eiga nemendur val um við hvorn skólann þeir taka þessa áfanga. Sama gildir um valáfanga.